top of page

Fjölskyldur líða fyrir áhugaleysi stjórnvalda

Undirrituð er lögmaður og starfar einkum á sviði fjölskyldu- og barnaréttar. Undir þann málaflokk falla m.a. forsjár- og umgengnismál. Vilji foreldri barns t.d. fá aukna umgengni eða bara einhverja umgengni við barn eða fá forsjá breytt, annað hvort í sameiginlega eða fulla forsjá, er því skylt samkvæmt barnalögum að sækja um slíka breytingu hjá fjölskyldusviði Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, áður en unnt er að höfða dómsmál.

Ófremdarástand vegna málafjölda og manneklu ríkir nú, og hefur ríkt um langt skeið, hjá fjölskyldusviði Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Er biðtími eftir fyrstu afgreiðslu sifjamáls nú kominn yfir 9 mánuði og það er einungis biðin eftir fyrstu fyrirtöku, eða eftir því að málið verði tekið til meðferðar. Svo getur meðferð málsins auðveldlega tekið einhverja mánuði til viðbótar þar til niðurstaða fæst. Þetta þýðir t.d. að ef foreldrar koma sér ekki saman um fyrirkomulag umgengni eða t.d. að umgengnissamningur er ekki fyrir hendi, að þá getur svo verið að annað foreldrið fái enga umgengni við barnið sitt, á meðan beðið er og þar til mál hefur verið afgreitt. Náist síðan ekki sátt milli foreldra í sáttameðferð hjá sýslumanni getur svo löng bið skapað öðru foreldrinu óeðlilegt forskot í dómsmáli síðar meir og þannig raskað réttarstöðu foreldra með óeðlilegum og óafturkræfum hætti.

Til mín leitaði í nóvember 2018, faðir 4 ára stúlku. Hann hefur ekki forsjá yfir dóttur sinni og einungis mjög takmarkaða umgengni, eða um sex daga í mánuði. Samband þeirra feðgina er samt sem áður náið og kærleiksríkt en faðir þessi þráir að vera mun meiri þátttakandi í lífi dóttur sinnar og fá ríkari tíma með henni og sterkari stöðu sem uppalandi hennar. Einhverra hluta vegna er móðir stúlkunnar þessu andsnúin og því neyðist faðirinn til að senda inn beiðnir um breytingu á umgengi og forsjá til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Umsóknin er dagsett í nóvember 2018, en málið hefur enn ekki verið tekið fyrir hjá sýslumanninum, níu mánuðum síðar. Fyrr en málið hefur verið tekið fyrir og afgreitt hjá sýslumanninum, og embættið gefið út svokallað árangurslaust sáttavottorð, getur faðirinn ekki höfðað mál fyrir dómi til að fá þessu breytt.

Á meðan stækkar og þroskast barnið á ógnarhraða og dýrmætur tími og samskipti milli þeirra feðgina tapast. Fjölskyldur og börn líða fyrir ástandið hjá hinu opinbera og þrátt fyrir að stjórnvöldum hafi ítrekað verið bent á þetta. Stjórnmálamenn eins og Helga Vala Helgadóttir hefur barist fyrir því að beitt verði einföldum aðgerðum til að lagfæra ástandið. Hins vegar virðist vilji hjá stjórnvöldum til þess ekki vera fyrir hendi. Fjölskyldur og börn eru einfaldlega ekki á forgangslista stjórnvalda, því miður.

Verði ekki sett fjármagn í að lagfæra þennan brýna vanda verður hreinlega að breyta lögum svo fjölskyldur séu ekki þvingaðar í sáttameðferð hjá embætti, sem hefur hvorki burði né mannskap til að sinna slíku, áður en unnt er að höfða dómsmál um breytingu á umgengni og/eða forsjá. Slík mál sæta lögum samkvæmt flýtimeðferð hjá dómstólum sem þýðir að málsmeðferð þeirra beri að hraða.

Undirrituð skorar á stjórnvöld að bregðast við þessu ófremdarástandi og tryggja fjölskyldum nauðsynlega og eðlilega þjónustu. Yfirgengilegur seinagangur kerfisins er til þess fallinn að hafa óeðlileg áhrif á réttarstöðu foreldra í forsjármálum og bitnar einkum verst á sjálfum börnunum sem í hlut eiga.

Höfundur er lögmaður.


Featured Posts
Recent Posts
Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page