top of page

Bætur greiddar fyrir að sæta rannsóknaraðgerðum lögreglu

Í 228. gr. laga um meðferð sakamála er mælt fyrir um rétt manns til að fá greiddar bætur ef hann hefur verið borinn sökum í sakamáli og mál hans var fellt niður eða hann sýknaður með endanlegum dómi. Bætur eru dæmdar fyrir beitingu þvingunaraðgerða lögreglu á rannsóknarstigi, þ.e. haldlagningu, sem er úrræði lögreglu til að leggja hald á muni í eigu eða vörslu sakbornings í þágu rannsóknar máls, leit og líkamsrannsókn, hvort sem er líkamsleit eða húsleit, símhlustun og önnur sambærileg úrræði og svo handtöku og beitingu gæsluvarðhalds.

Ströng skilyrði eru í lögum fyrir beitingu þessara þvingunarúrræða enda um alvarlega skerðingu á persónufrelsi og friðhelgi einkalífs manna að ræða sem eru stjórnarskrárvarin mannréttindi.

Bótaregla 228. gr. sakamálalaganna mælir fyrir um hlutlæga bótaábyrgð íslenska ríkisins vegna þvingunaraðgerða þess, sem beitt er gegn saklausum mönnum í tengslum við rannsókn eða meðferð sakamáls. Reglan er hlutlæg og því ekki skilyrði um sök, þ.e. að tjóni hafi verið valdið af ásetningi eða gáleysi og ekki skiptir heldur máli hvort skilyrði fyrir þvingunarráðstöfunum hafi brostið. Hugsanlegt er að lækka eða fella niður bætur í þeim tilvikum sem sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann var beittur af hálfu ríkisins.

Í nýlegum dómi Hæstaréttar nr. 345/2016 voru manni greiddar bætur fyrir ýmis konar þvingunarráðstafanir sem hann mátti þola að ósekju. Þurfti hann m.a. að þola símhlerun, húsleit, handtöku og gæsluvarðhald þar sem hann var látinn þola einangrunarvistun. Maðurinn var aldrei ákærður og mál hans fellt niður. Hæstiréttur dæmdi íslenska ríkið til að greiða manninum 2.000.000 kr. í bætur á grundvelli 228. gr. sakamálalaga.


Featured Posts
Recent Posts
Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page