top of page

Dæmdur í sex mánaða fangelsi án þess að vita af því


Sara Pálsdóttir ritar:

Um allan heim eru mannréttindi fótum troðin. Þrátt fyrir að við hér á Íslandi séum framarlega þegar kemur að vernd mannréttinda, má margt bæta. Í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu er fjallað um rétt manna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Í þessu felst að þegar kveða á um réttindi og skyldur manns eða sök hans, ef hann er borinn sökum um refsivert brot, skuli hann eiga rétt til að:

– fá skorið úr um sekt eða sakleysi fyrir óhlutdrægum og óháðum dómstóli

– vera talinn saklaus uns sekt er sönnuð með dómi

– fá að vita án tafar og í smáatriðum um inntak þeirra ásakana sem bornar eru á hendur honum

– fá aðgang að gögnum máls, á tungumáli sem hann skilur

– fá nægan tíma til og aðstöðu til að undirbúa vörn sína

– halda uppi vörnum með eða án aðstoðar verjanda

– vera viðstaddur réttarhöldin sjálfur

– tjá sig – afla gagna, leiða vitni og spyrja vitni

– áfrýjunar og/eða endurupptöku

Fyrir rúmu ári síðan var skjólstæðingur minn að lesa fréttir á vísi.is. Honum brá heldur betur í brún þegar hann las þá frétt um að búið væri að dæma hann í sex mánaða fangelsi. Hann hafði ekki hugmynd um að hann hefði verið sakborningur í sakamáli, hvað þá að hann hafði verið dæmdur í fanglsi! Í boði íslenska ríkisins, hafði heilt sakamál á hendur manninum, verið rekið fyrir dómstólum landsins, algerlega án hans vitneskju. Það segir sig sjálft, að þeirra mannréttinda sem felast í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, fékk maðurinn ekki að njóta.

Þá hafði ákæruvaldið leyft sér þau vinnubrögð, að birta ákæru fyrir öðrum lögreglumanni, fyrir utan heimili mannsins. Það þarf ekki lögfróðan mann til að átta sig á því að slík ,,birting“ nær ekki tilgangi laganna, þ.e. að viðkomandi fái vitað af ákæru og efni hennar í smáatriðum. Svo þegar búið var að reka sakamálið á hendur manninum, án þess að hann fengi að vita af því eða tækifæri til að verjast, þá var dómurinn birtur í lögbirtingablaði, en ekki fyrir honum sjálfum, líkt og lög kveða á um. Þannig fékk maðurinn heldur ekki að vita að búið væri að dæma hann í fangelsi.

Undirrituð fordæmir vinnubrögð ákæruvaldsins og þátttöku dómstóla í þeim. En málinu er langt frá því lokið.

Höfundur er lögmaður.


Featured Posts
Recent Posts
Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page